Góð grein eftir Sjálfstæðismann, sem stendur undir því nafni.

Stal þessu af BB (bæjarins besta)

 ÞArna hljómar tónn, sem mér líkar að heyra frá Sjálfstæðismanni, manni sem man grunngildi Flokksins.

Gísli H. Halldórsson | 24.03.2010 | 10:11Blekkingarleikur í sjávarútvegi

Kvótahafar, með fulltingi annarra aðila, hafa nú blásið til fundar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði miðvikudagskvöldið 24. mars klukkan 20:00. Tilefnið er að halda áfram þeim blekkingarleik sem settur hefur verið á svið, til að fólki um allt land verði talin trú um að ekki megi undir neinum kringumstæðum breyta kvótakerfinu. Ekki megi tefla hagsmunum kvótahafa í tvísýnu, því enginn nema núverandi fyrirtæki þeirra séu fær um að sækja þann afla sem er undirstaða byggðar á Íslandi.

Sagt er að kvótakerfið okkar, sem veldur því að byggðir víða um land hafa þurft að lepja dauðann úr skel, sé hið besta í heimi. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að kvótakerfið hefur kostað Ísafjarðarbæ og Bolungarvík mörg hundruð starfa á síðustu tuttugu árum. Þorir einhver að fullyrða að þeirri þróun sé nú lokið? Það þarf enginn að halda að kvótahafar, fyrirtæki þeirra og hagsmunasamtök, ætli að samþykkja nokkra þá breytingu sem máli skiptir á þessu kerfi. Til þess eru persónulegir hagsmunir of miklir.

Hægt er að fallast á að Ísafjarðarbær eigi aðkomu að boðun funda um sjávarútvegsmál. Þannig háttaði þegar fundur smábátaeigendafélagsins Eldingar um línuívilnun var haldinn í Íþróttahúsinu Torfnesi árið 2003. Allar raddir þurfa að fá að heyrast. Það er hinsvegar dæmigert fyrir þann blekkingarleik sem yfirstandandi fundaröð kvótahafa er, að látið skuli í veðri vaka að Ísafjarðarbær og Verkalýðsfélag Vestfirðinga hafi sameinast í andstöðu við fyrningarleiðina. BB hefur að minnsta kosti tekist að misskilja hlutina þannig í sinni frétt. Ekkert er þó fjarri sanni. Hvorki Ísafjarðarbær né Verkalýðsfélag Vestfirðinga hafa lýst andstöðu gegn fyrningaleið í sjávarútvegi.

Fyrningaleið er auðvitað bara ein leið til þess að milda áhrif nauðsynlegra breytinga á kvótakerfinu. Að sjálfsögðu mun smæsta breyting á kvótakerfinu hafa kostnaðaráhrif. Eina leiðin til þess að koma með öllu í veg fyrir kostnaðaráhrif, á borð við þau sem framkvæmdastjóri Deloitte hefur bent á, er að engin breyting verði gerð á kvótakerfinu og útgerðunum í raun gefinn sá kvóti sem þær hafa hingað til haft að láni frá þjóðinni.

Það er full ástæða til að vefengja allt sem haldið er fram í þessari áróðurskenndu fundaröð. Reynt er að láta líta út sem breið samstaða sé í sjávarbyggðum gegn því að hróflað sé við kvótakerfinu. Ég leyfi mér að efast um það. Allt tal um gjafakvóta er hjómið eitt hjá því sem nú er að gerast. Nú eru kvótahafar endanlega að reyna að slá eign sinni á þann afnotarétt sem þeir hafa hingað til haft að láni. Þetta reyna þeir í trássi við landslög. Það er hinsvegar grátlegt ef þessum aðilum tekst að fá í lið með sér fólk og byggðalög sem eiga um sárt að binda vegna hins misheppnaða kvótakerfis. Sjaldan launar kálfur ofeldið.

Spurning dagsins er auðvitað sú hvort við viljum halda okkur við það kerfi sem hefur átt stærsta þáttinn í að fækka Vestfirðingum um 20% á síðasta aldarfjórðungi. Eigum við að gera það og leggjast á bæn og treysta því að núverandi fyrirtæki í sjávarútvegi fari aldrei á hausinn eða flytjist á brott?

Kæru bæjarbúar, félagar í Verkalýðsfélagi Vestfirðinga og fleiri. Fundurinn í Edinborgarhúsinu er boðaður í ykkar nafni, en raunverulegur tilgangur hans er að halda verndarhendi yfir kvótakerfinu. Þessi fundaröð er aðför að landsbyggðinni. Ég hvet ykkur til að mæta á þennan fund og fylgjast með því hvaða tillögur að ályktunum í ykkar nafni verða lagðar fram.

Gísli H. Halldórsson.

 

Tek undir þetta allt og bæti við, að þetta LÍjúgara dót eru nú öngvir snillingar í rekstri, sjáið bara hvernig sterk fyrirtæki á borð við SH --nú Icelandic -- er eftir aðkomu Samherja og fl snillinga.

Sjávarútvegurinn er stórskuldugur og lygin um, að kvótinn hafi að mestu verið keyptur og seldur, fellur við það eitt, að skoða hverjir eru í útgerð og hverjir voru það fyrr.  Þetta eru að mestu þeir sömu og félög í þeirra eigu hafa keypt og selt á milli sín skip og hlaðið yfirverði á þau, svo megi bókfæra kvótann,sem óefnislega eign, líkt og aðra viðskiptavild.

Endurskoðendur og löffar hafa verið í fullri vinnu við, að finna leiðir til að hækka (blása út) eigið fé svo taka mætti lán ú t á kvóta,,EGN" fyrirtækjanna, þó standi í lögunum greinilega og marg marg þinglýst (lýst í umræðum á ALþingi) að veiðirétturinn og úthlutanir séu eign þjóðarinnar og veiðiréttur sé TIL EINS ÁRS Í SENN.

 

Miðbæjaríhaldið

fastur í grunnkenningum Sjálfstæðisflokksins, kenningum sem kom þjóðinni vel en ekki illa eins og græðgisvæðingin gerði undir sviksamleum áróðri og blekkingum siðblindra gróðapunga sem sögðu sig frjálshyggjumenn en voru bara það sem eitt sinn var kallað -------þjófar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Algjörlega sammála þessu Bjarni minn.  Gísli er kjarkmaður og þú og nokkrir fleiri, að þora að rísa svona gegn sægreifunum, þeir beita öllu sínu til að fela sannleikann.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.3.2010 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband